Starfsemi Festi

Festi samstæðan veitir heimilum landsins aðgengi að breiðu úrvali nauðsynjavara og þjónustu á einfaldan og aðgengilegan hátt.
Festi er eignarhaldsfélag fyrirtækja sem öll gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi með sölu á dagvörum, lyfjum, heilsuvörum, eldsneyti, raforku og raftækjum. Fasteigna- og vöruhúsarekstur er einnig mikilvægur hluti af starfsemi samstæðunnar. Festi og dótturfélög samstæðunnar eru meðvituð um þau áhrif sem þau hafa á samfélagið allt í gegnum starfsemi sína, bæði sem þjónustuaðili og vinnustaður, og leggja mikla áherslu á að vera til fyrirmyndar hvað varðar heilbrigða viðskiptahætti og heilsueflandi starfsumhverfi.
Festi á dótturfélögin Krónuna sem rekur samnefndar matvöruverslanir, N1 sem rekur þjónustustöðvar eldsneytis- og rafmagnssölu og verkstæði, ELKO sem er stærsta raftækjaverslun landsins, Yrkir sem á og rekur fasteignir samstæðunnar og Bakkann vöruhótel sem sérhæfir sig í vöruhúsaþjónustu og dreifingu. Á síðasta ári bættist Lyfja í hóp dótturfélaga Festi, en Lyfja rekur lyfjaverslanir hringinn í kringum landið auk dótturfélagsins Heilsu sem flytur inn lyf og heilsuvörur.
Dótturfélög Festi eru leiðandi á sínu sviði og leggja áherslu á að bæta og einfalda aðgengi að vörum og þjónustu með snjöllum lausnum sem styðja við sjálfbæran og heilsusamlegan lífsstíl viðskiptavina. Hlutverk Festi er að stýra fjárfestingum, styðja við verðmætasköpun og skapa ný tækifæri í samstarfi við dótturfélög samstæðunnar.

ELKO hefur fest sig í sessi sem þekktasta og stærsta raftækjaverslun landsins. Verslanir félagsins eru sex talsins, þrjár á höfuðborgarsvæðinu, ein á Akureyri og tvær á Keflavíkurflugvelli. Viðskiptavinum vefverslunar fjölgar stöðugt en með miðlægu þjónustuveri og fjölbreyttum afhendingarmátum þjónustar vefverslun elko.is, viðskiptavini um land allt.
ELKO kappkostar að bjóða þekktustu vörumerkin og vinsælustu vörurnar á raftækjamarkaði á bestu fáanlegu verðum hér á landi, sem endurspeglast í loforði félagsins: „Það sem skiptir þig máli skiptir okkur máli.“
Framúrskarandi þjónusta, stöðug framþróun og góð fyrirtækjamenning lýsa vel daglegum áherslum stjórnenda og er félagið efst á sínum markaði í Íslensku ánægjuvoginni ásamt því að vera menntafyrirtæki ársins. Markmið félagsins eru að hjálpa öllum með ótrúlegri tækni að gera lífið betra, þægilegra og ánægjulegra. Í þeim efnum má nefna breitt vöruúrval, verðöryggi, verðsögu, viðbótartryggingar, fjölbreytta fjármögnunarmöguleika, gjafakort án gildistíma og allt að 30 daga skilarétt. Allt eru þetta vel aðgreinandi þjónustuþættir og endurspegla áherslu félagsins á að byggja upp farsælt langtímasamband við viðskiptavini.
ELKO er með sérleyfissamning við norska félagið Elkjøp sem rekur um 420 verslanir á Norðurlöndunum. Elkjøp er í eigu breska raftækjarisans Currys PLC sem rekur um 720 verslanir í Bretlandi, Írlandi og Norður-Evrópu. Með sameiginlegum innkaupum nást betri kjör á þekktum vörumerkjum raftækja og njóta viðskiptavinir ELKO góðs af því.
Rekstur ársins






1,3 millj.
heimsókna í verslanir ELKO á árinu
85%
landsmanna heimsóttu elko.is á árinu
94%
ánægja viðskiptavina með þjónustu ELKO
4,16 af 5
í ánægjueinkunn hjá starfsfólki ELKO á árinu
ELKO er með fastmótaða stefnu og skýra framtíðarsýn: „að eiga ánægðustu viðskiptavini á raftækjamarkaði“. Síðustu fimm ár hefur starfsfólk lagt allt undir til að ná þessu markmiði með hnitmiðaðri aðgerðaráætlun sem náðist loks árið 2024 þegar fyrirtækið mældist í fyrsta sæti á raftækjamarkaði í íslensku ánægjuvoginni. Félagið mun halda áfram á þessari vegferð á komandi árum og styrkja þannig enn frekar stöðu sína á markaði. Lögð verður áhersla á fimm lykilflokka til árangurs: verslanir, þjónustu, stafræna þróun, sjálfbærni og mannauð.
Fjölmörg verkefni eru á döfinni til að efla ELKO enn frekar og er eitt það stærsta að innleiða nýtt tölvukerfi sem mun opna dyr að frekari tækifærum til nýsköpunar og framþróunar. Á sviði mannauðsmála verður þjálfun og kennsla þróuð enn lengra og skýrari ferlar settir í ráðningum. Félagið setur stefnuna á að verða best í úrlausn þjónustuáskorana ásamt því að leggja meiri áherslu á viðbótarþjónustu með vörum. Félagið mun áfram leggja áherslu á stafræna þróun og styðja vel við framþróun vefverslunar sem er orðin önnur arðbærasta verslun ELKO og ein sú stærsta á smásölumarkaði. Haldið verður áfram að styrkja hringrásarhagkerfi raftækja og leita leiða til að finna arðbærar og sjálfbærar leiðir fyrir raftækjaúrgang. Framkvæmdir verða fullkláraðar á flaggskipi ELKO í Lindum sem enduropnaði rétt fyrir síðustu jól í nýju útliti sem styður við framúrskarandi upplifun viðskiptavina.
Í samskiptum við viðskiptavini verður gagnsæi, traust og góð þjónusta höfð að leiðarljósi til framtíðar og er það trú stjórnenda að loforð fyrirtækisins sé grundvöllurinn að góðum rekstri, áframhaldandi vexti og góðu langtímasambandi við viðskiptavini.
Það sem skiptir þig máli skiptir okkur máli!

Krónan er leiðandi lágvöruverðsverslun sem leggur mikla áherslu á lágt vöruverð og ferskleika ásamt því að uppfylla fjölbreyttar þarfir viðskiptavina. Fyrsta Krónuverslunin var opnuð árið 2000 og hefur markaðshlutdeild aukist jafnt og þétt frá upphafi, en ekki síður á síðastliðnum árum. Þar hefur breytt nálgun í mörkun, markaðssetningu, upplifun í verslunum og mikil áhersla á samfélagsábyrgð, umhverfismál og lýðheilsu haft sitt vægi. Aðgreining Krónunnar liggur meðal annars í því koma fjölbreyttu vöruúrvali á sem ódýrustu verði til viðskiptavina og að einfalda líf þeirra með stafrænum lausnum. Krónan fékk Svansvottun árið 2019 og er eina Svansvottaða dagvöruverslunin á Íslandi í dag. Krónan fer sínar eigin leiðir og vill ryðja brautina í þróun matvöruverslana á Íslandi.
Framtíðarsýn Krónunnar er að gera heilsusamlegan og sjálfbæran lífstíl að daglegum venjum allra. Þessi framtíðarsýn er leiðarljós starfsfólks Krónunnar, sem leggur metnað sinn í að hlusta á viðskiptavini og þróa stöðugt nýjar leiðir til að einfalda dagleg innkaup og bjóða upp á jákvæða heildarupplifun, meðal annars með snjöllum lausnum.
Starfsfólkið er lykillinn að velgengni félagsins og er mikið lagt upp úr samheldni og jákvæðu starfsumhverfi þar sem fjölbreytileika er fagnað. Íslenskt hugvit keyrir áfram nýsköpun, en tækni- og sjálfbærnilausnir eru þróaðar með öflugu teymi þar sem viðskiptavinurinn og upplifun hans er í fyrirrúmi. Þetta hefur skapað sérstöðu fyrir Krónuna á markaðnum eins og mælingar sýna. Krónan þykir nútímalegri, umhverfisvænni og framsæknari en aðrar matvöruverslanir samkvæmt mælingum Vörumerkjavísitölu Brandr. Krónan mældist einnig með ánægðustu viðskiptavinina á matvörumarkaði í áttunda skipti samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni árið 2024.
Rekstur ársins





40.000
viðskiptavinir skönnuðu og skunduðu á árinu 2024
96.000
notendur Krónuappsins
Svansvottun
Eina svansvottaða matvöruverslunin á Íslandi
8 ár í röð
ánægðustu viðskiptavinirnir á matvörumarkaði
Gríðarlegur vöxtur hefur einkennt síðustu ár og heldur Krónan áfram að aðgreina sig frá öðrum á matvörumarkaði með lausnum sem neytendur leita sífellt meira eftir. Krónan horfir til framtíðar og er framsækin og óhrædd við að prófa sig áfram með nýjungar.
Snjallar lausnir, allt frá vefverslun og appi yfir í umhverfisvænar lausnir sem hjálpa viðskiptavinum að lifa sjálfbærum lífsstíl verða áfram í áherslu. Stefnt er á enn frekari sókn heimsendinga á landsbyggðinni og áframhaldandi þróun á vef og appi Krónunnar. Skannað og skundað lausnin hefur slegið í gegn og verður áfram lögð áhersla á að fá fleiri notendur til að nýta sér þessa frábæru lausn.
Mikil áhersla er lögð á fræðslu og þjálfun starfsfólks til að auka starfsánægju og stuðla að jákvæðri upplifun viðskiptavina. Aukin skilvirkni er nauðsynleg til árangurs og aukin sjálfvirknivæðing til að stuðla að sem hagkvæmasta rekstri. Umhverfismál og samfélagsábyrgð verða áfram í forgangi þar sem markmiðið er að minnka losun og auðvelda viðskiptavinum að taka sín eigin umhverfisvænu skref. Sérstök áhersla er á flokkun úrgangs og mikið lagt upp úr samstarfi um prófun nýrra úrvinnslulausna. Lífrænt horn í Lindum kom upp árið 2024 við góðar undirtektir og stefnan er að lyfta lífrænum og umhverfisvænum vörum upp enn frekar, meðal annars með áframhaldandi þróun á Heillakörfunni. Er sú vinna liður í því að aðstoða viðskiptavini við að taka upplýstar ákvarðanir í sínum innkaupum.
Krónan er brautryðjandi á dagvörumarkaði og vinnur að því markmiði að móta matvöruverslun framtíðarinnar í virku samtali við viðskiptavini og starfsfólk. Sveigjanleiki og þor til að taka stór skref og hafa áhrif í krafti stærðar verður áfram leiðarljósið á nýju rekstrarári.

Lyfja er eitt elsta apótek landsins en kom ný inn í samstæðu Festi á árinu. Lyfja er eitt sterkasta vörumerki Íslands og það þekktast á sínum markaði samkvæmt markaðs- og viðhorfskönnunum. Lyfja starfrækir í dag 44 apótek og sérverslanir allan hringinn í kringum landið auk vefverslunar og Lyfju appsins. Hjá Lyfju starfar öflugur hópur heilbrigðismenntaðs og sérþjálfaðs starfsfólks sem styður við viðskiptavini í þeirra heilsueflingu, vinnur að vellíðan og tryggir lyfjaöryggi.
Framtíðarsýn Lyfju er að lengja líf og auka lífsgæði viðskiptavina. Lyfja vinnur markvisst að því að skapa sér aðgreiningu á markaði með framúrskarandi þjónustu og upplifun. Þannig er stefnumarkandi nýsköpunarverkefnum forgangsraðað og var 2024 fyrsta heila rekstrarár Lyfju Heyrnar. Lyfju appið hefur einnig breytt leiknum þegar kemur að þjónustuupplifun við að leysa út lyf og versla heilsutengdar vörur og fékk appið tvenn verðlaun SVEF á árinu. Mælingar sýna að ánægja viðskiptavina er að aukast og eru mörg spennandi verkefni í pípunum sem styðja við vegferð Lyfju, að vera til staðar fyrir viðskiptavini á sinni heilsuvegferð. Það er samheldið og faglegt Lyfjulið um allt land sem nær slíkum árangri. Stór tímamót voru á árinu þegar Lyfja kom inn í samstæðu Festi þar sem félagið fær enn meiri stuðning til að vaxa og efla þjónustu við viðskiptavini um allt land.
Rekstur ársins





25%
sölumagnsaukning í vörum vottaðar "Hrein vara í Lyfju" frá fyrra ári
68%
veltuaukning í Lyfju appinu milli ára
508
mínútur af fræðsluefni til heilsueflingar
11%
aukning í heilsufarsmælingum milli ára
Starfsfólk Lyfju vinnur markvisst að því að uppfylla framtíðarsýnina, að lengja líf og auka lífsgæði. Lyfja mun áfram vinna að aðgreiningu á markaði í gegnum upplifun, þjónustu, þjálfun og menningu. Stefnumarkandi verkefni með það að markmiði að styrkja stöðu félagsins á apóteksmarkaði eru á döfinni á árinu ásamt þróun nýrra tekjustoða og þjónustuþátta til að sækja frekari vöxt í gegnum nýsköpun. Vöruval og þjónusta í gegnum stafrænar dreifileiðir verður aukið á árinu með nýjum vef, lyfja.is. Lyfja mun einnig byggja á sterkum stoðum, öflugu eignarhaldi og vaxandi dótturfélagi. Stærstu verkefni ársins eru skilgreind út fá vegferðinni og miða að því að mæta þörfum viðskiptavinarins, þjónusta hann á aðgreinandi hátt, þar sem hann þarf á þjónustunni að halda. Markvisst verður unnið að þjónustumarkmiðum Lyfju og áhersla á færni til framtíðar innan Lyfjuliðsins með öflugri fræðslu, þjálfun og endurgjöf til starfsfólks. Áhersla Lyfju er heilbrigði og vellíðan og verður vöruval áfram þróað í þá átt ásamt áherslu á heilsueflandi fræðsluefni og stefnt er að endurhönnun verslana Lyfju á Austurlandi.
Lyfja sér mikil tækifæri í að koma sterkar inn í fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu og byggja á sínum faglega grunni. Tækifæri felast í stafrænni þróun sem getur létt á heilbrigðiskerfinu og bætt aðgengi að heilsutengdri þjónustu. Það hefur reynst áskorun að ryðja nýjar brautir, heilbrigðisþjónusta er í eðli sínu íhaldssöm og kröfur um öryggi og fagmennsku skiljanlegar. Mikilvægt er að ná samtali um regluverk og umhverfi nýsköpunarverkefna til að mæta þörfum markaðarins og styðja við heilbrigðiskerfið okkar.

N1 er með sterkar rætur í íslensku samfélagi sem eitt öflugasta orku- og þjónustufyrirtæki landsins með starfsstöðvar um land allt. Starfsemi félagsins er fjölbreytt en meginhlutverk þess felst í að sjá fólki og fyrirtækjum fyrir eldsneyti og raforku. Verkstæði N1 sinna öllum lykilþáttum í almennu viðhaldi bíla og þjónustustöðvar félagsins bjóða uppá breitt vöruúrval í bíla- og rekstrarvörum auk veitinga og afþreyingar. Þannig heldur N1 samfélaginu á hreyfingu með kraftmikilli þjónustu og vöruúrvali sem uppfyllir kröfur viðskiptavina hvenær og hvar sem þeim hentar. Þar að auki umbunar félagið korthöfum viðskipti með söfnun punkta sem nýta má til kaupa á vörum og þjónustu á starfsstöðvum N1 um land allt.
Áhersla er lögð á að sýna samfélaginu og umhverfinu virðingu, einfalda líf viðskiptavina með þéttu þjónustuneti og hleypa auknum krafti í samfélagið með stuðningi við góð málefni sem auðga mannlífið um allt land.
Frábær hópur starfsfólks skapar sterkan grunn fyrir sókn N1 til framtíðar og sinnir þörfum viðskiptavina á starfsstöðvum N1 um allt land ásamt öflugri fyrirtækjaþjónustu fyrir allar greinar atvinnulífsins. Félagið er virkur þátttakandi í orkuskiptum með uppbyggingu rafhleðslustöðva á þjónustustöðvum félagsins, bæði undir eigin merkjum og í samstarfi við Tesla, ásamt smásölu rafmagns til heimila og fyrirtækja.
Rekstur ársins

á árinu





603.000
pylsur seldar
327.000
Dropp sendingar afhendar
48.700
bílar umfelgaðir
80 millj.
N1 punktar söfnuðust hjá korthöfum
N1 gegnir mikilvægu hlutverki í innviðakerfi landsins. Félagið er með víðtækasta net eldsneytisafgreiðslu á Íslandi og er stolt að geta þjónustað fólk um land allt. Síðustu ár hafa einkennst af orkuskiptum og stefnumörkun um hvaða leiðir séu fýsilegastar í þeim efnum. Að öllum líkindum verður engin ein leið fyrir valinu, enginn einn orkugjafi mun leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Við erum mislangt komin í orkuskiptum eftir eðli vélbúnaðar og farartækja. Lengst erum við komin í orkuskiptum fólksbíla en stærstur hluti vöruflutninga og stórtækra vinnuvéla reiða sig enn á jarðefnaeldsneyti. N1 vill uppfylla orkuþarfir einstaklinga og fyrirtækja og vera ráðgefandi samstarfsaðili fyrirtækja í þeirra orkuskiptum. Hröð þróun hefur verið á hraðhleðslubúnaði og á árinu munum N1 klára uppfærslu á eigin hraðhleðslustöðvum yfir í nýjan og endurbættan búnað. Auk þess að fjölga staðsetningum og hleðslustæðum í samstarfi Tesla, sem eru opin fyrir allar tegundir rafbíla.
Markmiðið er að einfalda viðskiptavinum okkar lífið með því að sinna öllum lykilþáttum sem snúa að rekstri farartækja. Bílaþjónustan sinnir smur- og dekkjaþjónustu ásamt því að bjóða upp á dekkjahótel og leigu á nagladekkum. Eftirspurn eftir þeirri þjónustu færist sífellt í aukana enda talsverð þægindi fyrir viðskiptavini. Bílaþjónustan hefur vaxið ár frá ári enda eru verkstæði N1 þekkt fyrir gæði og áreiðanleika, þökk sé hæfu og reynslumiklu starfsfólki. Nýjasta viðbótin er bílaþvottur N1 og sú þjónusta verður þróuð áfram á komandi ári.
Þjónustustöðvar N1 eru mikilvægir áningarstaðir fyrir fólk á ferðinni hvort sem það er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Sífellt er verið að endurmeta hvernig N1 getur sem best þjónustað fólk í amstri dagsins og á ferðalögum. Það verður ein af lykiláherslum á árinu að gera enn betur á þjónustustöðvum, bæði í vöruvali og þjónustu, svo að hvert stopp á N1 nýtist viðskiptavinum sem best.

Bakkinn vöruhótel sérhæfir sig í vöruhýsingu, pökkun, vörumerkingu, afgreiðslu og dreifingu á vörum fyrir viðskiptavini sem kjósa að úthýsa sinni vöruhúsastarfsemi að einhverju eða öllu leyti. Félagið rekur tvö vöruhús á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið er upp á hágæða þjónustu til viðskiptavina.
Vöruhúsin eru útbúin til að geta þjónað margvíslegum þörfum, allt frá hýsingu á þurrvörum og raftækjum til hýsingar á margvíslegum tegundum spilliefna. Í báðum vöruhúsum eru sjálfvirkir turnskápar fyrir smávörur sem auka hagræði hýsingar og gera alla vörumeðhöndlun hagkvæma. Mikil áhersla er lögð á gæðaþjónustu, gæðaeftirlit og öryggi í starfseminni.
Starfsemi Bakkans er gríðarlega mikilvægur hlekkur í aðfangakeðju samstæðunnar þar sem Krónan, ELKO og N1 eru lykilviðskiptavinir. Félögin treysta á gæði, hagkvæmni, hraða og áreiðanleika þjónustunnar en einnig á sérþekkingu og stöðuga þróun vöruhúsastarfseminnar. Markmið félagsins er að vera samkeppnisfært við önnur vöruhús á landinu með áreiðanlegri og hagkvæmri gæðaþjónustu.
Rekstur ársins




23.000
samtals fermetrar vöruhúsa
9,5 KM
samtals lengd hillurekka
89
sölustaðir fá sendingar frá Bakkanum vikulega eða oftar
3.000
viðskiptavinir á mánuði koma að sækja vörur í Bakkann
Á næstu misserum verður unnið að áframhaldandi umbótum í rekstri með aukinni skilvirkni, bættri þjónustu og skýrari stefnumótun til framtíðar. Lögð verður áhersla á betri nýtingu húsnæðis og einföldun ferla til að auka hagkvæmni í starfsemi og bæta þjónustu við viðskiptavini.
Í byrjun árs verður tekið upp nýtt skipurit með skýrari verkaskiptingu og aukinni teymisvinnu til að styrkja innri ferla og efla þjónustuna enn frekar. Á sama tíma verður mótuð framtíðarstefna Bakkans í samstarfi við lykilstarfsfólk, með þeim tilgangi að skýra markmið félagsins og styrkja reksturinn til lengri tíma.
Á meðal stærri breytinga er flutningur Heilsu, dótturfyrirtækis Lyfju, í Bakkann. Undirbúningur stendur yfir til að tryggja hnökralausa innleiðingu og uppfylla ströng skilyrði um hýsingu lyfja. Einnig er í undirbúningi uppbygging nýs kælivöruhúss til að mæta vaxandi þörf fyrir hýsingu kælivara.
Með þessum aðgerðum er félagið vel í stakk búið til að mæta komandi áskorunum og styðja við áframhaldandi vöxt og þróun.

Yrkir sérhæfir sig í útleigu og umsýslu atvinnuhúsnæðis og eru fasteignir að mestu leyti í útleigu til dótturfélaga Festi. Yrkir á hluta fasteigna í rekstri félagsins en er einnig að sinna útleigu og umsýslu annarra fasteigna í samstæðu Festi og fer því allur fasteignarekstur samstæðunnar í gegnum Yrki. Innan félagsins eru tvær deildir, framkvæmda- og öryggisdeild, en félagið heldur utan um allar framkvæmdir á fasteignum, lóðum og rekstrareiningum samstæðunnar, hvort sem er í viðhaldsverkefnum eða nýfjárfestingum ásamt öryggismálum. Einnig sinnir Yrkir verkefnum sem snúa að fasteigna- og lóðarþróun fyrir samstæðuna.
Markmið félagsins er að fasteignarekstur samstæðunnar sé rekinn sem arðbær og sjálfstæð rekstrareining til virðisaukningar fyrir eigendur. Heildarfjöldi fasteigna í eigu samstæðunnar í árslok 2024 var 89 og eru þær samtals um 93 þúsund fermetrar að stærð. Nýtingarhlutfallið er 98% en 88% fermetrafjöldans er notuð fyrir eigin rekstur.
Rekstur ársins




93.000
samtals fermetrar fasteigna
102
eignir og lóðir í eigu samstæðunnar
98%
nýting á fasteignum í útleigu
88%
nýting á fasteignum í útleigu til samstæðunnar
Byggt verður á mikilli þekkingu á fasteignarekstri og framkvæmdum hjá samstæðunni með það að markmiði að fasteignir í samstæðunni séu reknar á sem hagkvæmastan hátt og samlegð milli rekstrarfélaga samstæðunnar hvað varðar staðsetningar og aðbúnað náist. Jafnframt mun félagið styðja við stjórnendur rekstrarfélaganna við mat á nýjum fjárfestingarkostum og tækifærum sem þeim fylgja.
Mikil þekking er á fasteignarekstri hjá samstæðunni. Markmiðin eru áfram að leita allra leiða til að reka fasteignir félaganna á sem hagkvæmastan hátt og standa þétt við bakið á stjórnendum við mat á nýjum fjárfestingarkostum og tækifærum sem þeim fylgja. Áhersla er lögð á að auka samlegð milli rekstrarfélaga Festi þar sem við á.
Stór verkefni eru fram undan. Má þar nefna þróun lóða á Ægisíðu, Stóragerði, Skógarseli og Rofabæ í Reykjavík fyrir ýmist íbúða- eða blandaða byggð. Bygging nýrrar fjölorkustöðvar N1 á Akranesi og við Fiskislóð í Reykjavík, uppbygging á Vík, endurnýjun verslunar Krónunnar í Vallakór og uppbygging nýrrar verslunar í Fitjum, Reykjanesbæ. Til viðbótar er stöðugt unnið að uppbyggingu rafhleðslustöðva vítt og breytt um landið auk annarra viðhalds- og endurnýjunarverkefna á starfsstöðvum samstæðunnar.