Ávarp

Stolt af árangri ársins í krefjandi rekstrarumhverfi

Árið 2024 var sérlega viðburðaríkt ár í starfsemi Festi og rekstrarfélaga. Skýr markmið og áherslur í rekstrinum skiluðu sér í betri niðurstöðum en stjórnendur höfðu áætlað í upphafi árs. Hagnaður ársins 2024 nam 4.018 millj. kr. (2023: 3.438 millj. kr.) sem er bæting um 16,8% milli ára þrátt fyrir áframhald hárra stýrivaxta og 750 millj.kr. sektar sem greidd var til Samkeppniseftirlitsins. EBITDA spá félagsins var uppfærð fjórum sinnum á árinu og nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og matsbreytingar 12.511 millj. kr. (2022: 11.015 millj. kr.) og hækkaði um 13,6% milli ára. Aukin umsvif hjá öllum dótturfélögum Festi skýra betri EBITDA afkomu, sérstaklega í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar þar sem velta og framlegð jókst meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá var afkoma Lyfju ekki inni í upphaflegri afkomuspá ársins.

Festi fjölskyldan stækkaði um heilt númer þegar Lyfja kom inn í samstæðuna í júlí eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti samrunann með sátt. Við Lyfju tók nýr framkvæmdastjóri Karen Ósk Gylfadóttir og með henni sterkt stjórnendateymi. Undir lok árs fluttist skrifstofa Lyfju yfir í höfuðstöðvar Festi á Dalvegi í Kópavogi og á sama tíma tók móðurfélagið yfir og sinnir sambærilegri stoðþjónustu og veitt er öðrum félögum í samstæðunni til Lyfju.

Fasteignafélag Festi tók við öllum fasteignarekstri samstæðunnar í ársbyrjun ásamt því að fá yfirhalningu og var endurskýrt Yrkir eignir í mars. Tilgangur breytingarinnar var að tefla félaginu skýrar fram sem mikilvægri einingu innan samstæðunnar, skerpa á áherslum félagsins og sýna uppgjör þess í sérlið líkt og önnur rekstrarfélög Festi til að gefa fjárfestum kost á að átta sig betur á umsvifum félagsins. Yrkir hefur staðið í öflugum þróunarverkefnum á árinu, m.a. í Stóragerði, Skógarseli og við Ægisíðu, ásamt á Akranesi og í Vík í Mýrdal, sem frekari fréttir verða af á árinu 2025.

Magnús Hafliðason var ráðinn framkvæmdastjóri N1 og tók við í lok febrúar 2025. N1 styrkti sig í sölu á eldsneyti og rafmagni og færði sig aftur inn á þvottastöðvamarkaðinn þegar félagið tók yfir sex þvottastöðvar sem höfðu verið í útleigu til þriðja aðila um árabil. Einnig opnaði N1 nýja þjónustustöð, þá stærstu á Suðurnesjum, á Flugvöllum, Reykjanesi og tók undir sig nýtt húsnæði fyrir stærsta dekkjahótel landsins við Borgarhellu. N1 hefur hug á að stækka enn frekar við sig í dekkjahótelsþjónustu sem og í bílaþjónustu heilt yfir.

Glæsileg og endurbætt flaggskipsverslun ELKO í Lindum í Kópavogi opnaði í lok október þar sem upplifun viðskiptavina er í forgrunni en félagið heldur áfram að sækja fram með hnitmiðuðu vöruúrvali og öflugri þjónustu. Sömuleiðis fékk vefverslunin elko.is glæsilega yfirhalningu en vefverslun ELKO er að verða ein stærsta eining félagsins.

Krónan heldur áfram að bæta sig og hefur viðskiptavinum og fjölda keyptra vara fjölgað töluvert milli ára. Glæsilegar uppfærslur á lykilverslunum Krónunnar í Grafarholti og á Bíldshöfða hafa vakið lukku meðal viðskiptavina, sem sýnir sig m.a. í aukinni veltu í þessum verslunum, og verður framhald á slíkum uppfærslum næstu árin.

Bakkinn vöruhótel hefur farið í umfangsmikla endurskoðun á starfsemi og skipulagi sem unnið er að hörðum höndum. Húsnæðið er í yfirhalningu og unnið að því að þjónusta enn betur rekstrarfélög samstæðunnar til að tryggja hraðari afhendingar og ferskari vörur með enn minni tilkostnaði.

Mikill vöxtur hefur átt sér stað í allri net- og appþjónustu samstæðunnar og ljóst að framtíðin liggur í frekari áherslu á þróun og vöxt þar. Krónan bætti töluvert við sig af afhendingarstöðum Snjallverslunar; Húsavík, Vestmannaeyjar, Neskaupsstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður, Laugarás, Flúðir og Reykholt og þjónustar nú meirihluta Austfjarða, Norðurlands, Suðurlands og uppsveita. Lyfja hefur sömuleiðis átt mikilli velgengni að fagna með netsölu og heimsendingar í nýju appi Lyfju, sem leyfir kaup á lyfseðilskyldum lyfjum, lausasölulyfjum, snyrtivörum og ýmiss konar heilsuvörum um land allt. N1 bætir stöðugt í virkni og þjónustu stafrænna lausna með N1 kortinu í appi og afgreiðslukioskum á stærstu þjónustustöðvum félagsins og mun halda því áfram næstu misserin en viðtökur hafa verið góðar meðal viðskiptavina – þó svo enn eigi eftir að bæta töluvert við þjónustuna.

Ánægja viðskiptavina skiptir okkur höfuðmáli og var því ánægjulegt þegar ELKO tók við íslensku ánægjuvoginni í fyrsta sinn fyrir árið 2024. Krónan fékk viðurkenninguna í 8. skiptið. ELKO var jafnframt valið menntafyrirtæki ársins og öll rekstrarfélög samstæðunnar, auk Bakkans og Festi, hlutu Jafnvægisvogina. Fleiri verðlaun komu í hús sem halda áfram að hvetja starfsfólk til að gera enn betur í dag en í gær líkt og UT messu verðlaunin sem móðurfélagið Festi fékk í heild sinni fyrir framúrskarandi árangur á sviði upplýsingatækni.

Við hófum formlegt söluferli á Olíudreifingu sem nú stendur yfir en Festi á 60% hlut á móti Olís. Í byrjun desember var þremur aðilum boðið að halda áfram í söluferlinu og er unnið að næstu skrefum í ferlinu.

Þá var mikilvægur lærdómur dreginn af sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið (SKE) í lok nóvember um brot Festi á sátt sem gerð var á árinu 2018 vegna kaupa N1 á Festi árið 2018. Stjórnvaldssektin nam 750 millj. kr. og var þungt högg en málinu telst endanlega lokið og kemur ekki til frekari rannsóknar eða málsmeðferðar gagnvart félaginu, starfsfólki eða öðrum einstaklingum af hálfu SKE.

Í fyrsta sinn í sögu félagsins var kaupréttarkerfi komið á fyrir allt þá starfandi starfsfólk samstæðunnar. Var það í upphafi árs sem stjórn og eigendur samþykktu slíkt kerfi á aðalfundi og erum við gríðarlega stolt af þeim áfanga. Með þann fjölbreytta og öfluga hóp sem hjá okkur starfar, alls um 2.700 manns af 63 mismunandi þjóðernum, er það okkur mikilvægt skref að fá að tengja árangur félagsins við framgöngu starfsfólks okkar. Að starfsfólk hafi hag af því að okkur gangi öllum vel, þvert á samstæðu. Að heildin sjái tækifæri í því að versla hjá og eiga viðskipti innan þessa öfluga vistkerfis sem Festi samstæðan er.

Horfandi yfir árið og fram á veginn er ljóst að félagið okkar er að stækka og eflast. Áhersla verður áfram á að bæta tekjuvöxt, halda aftur af kostnaði og skerpa á skilvirkni til að auka framlegð og lækka einingakostnað. Fjölmörg tækifæri skapast með innkomu Lyfju í samstæðuna sem unnið verður að á árinu samhliða gríðarmörgum öðrum spennandi verkefnum sem gaman verður að segja frá þegar líður á árið. Við erum stolt af þeim árangri sem náðist á síðasta ári og þökkum það fyrst og fremst tryggum viðskiptavinum og einstöku starfsfólki okkar um land allt.

Guðjón Reynisson
Stjórnarformaður
Ásta S. Fjeldsted
Forstjóri