Sjálfbærni

Við erum stolt af því að á hverjum degi velja tugþúsundir viðskiptavina að heimsækja starfsstöðvar okkar og versla sér nauðsynjavörur á borð við matvörur, lyf, eldsneyti, rafmagn og raftæki.
Traust, áreiðanleiki, gæði og sjálfbærni eru lykilþættir í okkar rekstri við að veita viðskiptavinum, starfsfólki og samfélaginu öllu heildræna og góða þjónustu.

Fjölbreyttur rekstur veldur því að félög Festi standa frammi fyrir ólíkum áskorunum í sjálfbærni, en á sama tíma eru tækifærin til framfara og áhrifa víðtæk. Félagið vinnur markvisst að því að þróa vöruframboð og þjónustu í takti við sjálfbærnimarkmið, leiða orkuskipti, draga úr sóun og styðja við verndun auðlinda. Þótt víða hafi verið rætt um bakslag í metnaði fyrirtækja í sjálfbærni á síðastliðnu ári, er Festi staðráðið í því markmiði sínu að vera áfram meðal fremstu fyrirtækja á Íslandi þegar kemur að sjálfbærni. Það er trú stjórnenda Festi að viðskiptatækifæri felist í sjálfbærni auk þess sem stefnumið í þágu sjálfbærni muni, ásamt fleiri þáttum, styrkja enn frekar undirstöður samstæðunnar til lengri tíma litið.

Þrátt fyrir að reglugerðir Evrópusambandsins um sjálfbærniupplýsingagjöf hafi ekki enn verið innleiddar að fullu, ákvað Festi að hefja vinnu við að aðlaga upplýsingagjöf sína að kröfum ESRS (European Sustainability Reporting Standard). Framkvæmd var ítarleg tvíþátta mikilvægisgreining auk þess sem farið var í yfirgripsmikla vinnu við að bæta sjálfbærnigögn samstæðunnar. Afrakstur þessarar vinnu má nálgast í sjálfbærniuppgjöri samstæðunnar fyrir árið 2024 sem að þessu sinni byggir á grunni ESRS þótt hún uppfylli ekki allar kröfur að sinni. Uppgjörið er birt sem sjálfstætt skjal í vafrastiku ársskýrsluvefsins en auk þess má nálgast stutta umfjöllun um verkefnið hér í sjálfbærnikafla ársskýrslunnar.

Markmiðið með þessum kafla um sjálfbærni hjá Festi er að fara yfir það sem þótti standa upp úr í sjálfbærnivegferð félagsins á árinu og skýra helstu breytingar sem urðu í nálgun og forgangsröðun félagsins.

Hápunktar í sjálfbærni hjá samstæðunni á árinu

Elko tók á móti rafrækjum til endurvinnslu fyrir rúmlega
20 m.kr.
á árinu
Rúmlega
2 millj.
matvæla bjargað hjá Krónunni með síðasta séns á árinu 
Heillakarfan kynnt til leiks en það er ný lausn í Krónuappinu sem er ætlað að skapa jákvæðar venjur í daglegum innkaupum. 
Lyfja tók á móti tæplega
17 tonnum
af lyfjum og sprautunálum til förgunar á árinu
ELKO, Krónan, Lyfja, N1 og Bakkinn hlutu öll Jafnvægisvog FKA fyrir jöfn kynjahlutföll í efsta stjórnendalagi. 
Öllu erlendu starfsfólki boðið upp á íslenskukennslu í samstarfi við bara tala. Kennslan fer fram í gegnum app/vefsíðu svo hægt er að stjórna sínu námi eftir hentugleika. 
N1 bætti við
32
hleðslustæðum á árinu (28 í samstarfi við Tesla) 
Krónan hlaut viðurkenningu Sjálfbærniássins 2024 sem mælir viðhorf íslenskra neytenda til frammistöðu í sjálfbærnimálum og hvatningarverðlaun CreditInfo á sviði sjálfbærni og nýsköpunar fyrir Heillakörfuna! 
N1 Fossvogi hóf sölu á lífrænum dísel (VLO) til almennings, fyrst þjónustustöðva á Íslandi - kolefnissporið er allt að 90% minna en af jarðefnaeldsneyti. 
Fjölmargir heilsutengdir viðburðir voru haldnir hjá Lyfju, Krónunni og N1 – íþróttamót, Lyfjugangan, drulluhlaup, krúttlegasta hjólamótið og fleira  
105 tonn
af fersku og ópökkuðu grænmeti beint frá býli íslenskra garðyrkjubænda voru seld á Bændamarkaði Krónunnar. 
Verkefnið „Hrein vara í Lyfju“ fór í loftið en það eru sérmerktar vörur án skaðlegra aukaefna. 
Sjálfbærnieiginleikum vara bætt við á elko.is til upplýsingar fyrir viðskiptavini  

Stefna, markmið og árangur 2024

Stór og góð skref voru stigin í sjálfbærnivegferð Festi árið 2024. Sum í takti við þegar skilgreind markmið en mörg helstu framfaraskrefin tengdust þó áherslubreytingum sem gerðar voru til að færa félagið nær framtíðarsýn sinni um að vera félagið sem þú vilt versla við, starfa hjá og fjárfesta í.

Sjálfbærnistefna Festi

Sjálfbærnistefna Festi hefur það hlutverk að marka áherslur félagsins í umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Stefnan gildir fyrir alla rekstrareiningar samstæðunnar en stendur nú til að endurskoða hana með hliðsjón af innkomu Lyfju í samstæðuna, auk niðurstaðna úr tvíþátta mikilvægisgreiningu (DMA). Uppfærslunni verður lokið á næstu mánuðum en núverandi útgáfu stefnunnar má nálgast á heimasíðu Festi.

Staða lykilmarkmiða úr sjálfbærniskýrslu síðasta árs

Í árs- og sjálfbærniskýrslu síðasta árs voru skilgreind lykilmarkmið fyrir árið 2024 sem spanna umhverfisþætti (U), félagslega þætti (F) og stjórnarhætti (S). Hér að neðan má sjá yfirlit yfir markmiðin og stöðu þeirra ári síðar.

Staða lykilmarkmiða úr samfélagsskýrslu Festi 2024

Nánar verður farið yfir árangur í viðeigandi undirköflum hér á eftir og yfirlit yfir sjálfbærnimarkmið ársins 2025 má finna í lok kaflans.

Aðrir sjálfbærnisigrar ársins

Til að auka enn frekar vægi og festu í sjálfbærnivegferð Festi var á árinu stofnuð staða sjálfbærnistjóra. Sjálfbærnistjóri leiðir framkvæmd sjálfbærnimála samstæðunnar og styður við vegferð dótturfélaga þess bæði í hlutverki ráðgjafa og gæðastjóra. Þessi viðbót hefur reynst lykilskref í að koma sjálfbærnimálum félagsins á hærra stig þótt dótturfélögin beri sjálf ábyrgð á sínum sjálfbærnimálum.

Miklar umbætur urðu í öflun og greiningu sjálfbærnigagna, en með samþættingu bókhalds-, vöru- og sölukerfa var hægt að nýta gögn úr fjárhagsbókhaldi sem grunn fyrir sjálfbærnibókhald. Með nýrri nálgun eykst nákvæmni gagna og möguleikar á greiningu umhverfisáhrifa. Þar sem fjárhagsbókhald byggir á viðurkenndum reikningsskilaaðferðum sem sæta reglulegri endurskoðun, getum við verið viss um að gögnin séu traust og sannreynanleg. Fyrir vikið byggist sjálfbærniuppgjör félagsins nú að mestu á raungögnum og félagið hefur betri forsendur til ákvarðana og aðgerða.

Líkt og áður hefur komið fram var framkvæmd tvíþátta mikilvægisgreining fyrir alla samstæðuna með aðstoð reyndra sérfræðinga. Virk þátttaka var frá öllum félögum samstæðunnar og var útkoman því ekki einungis ítarleg greining á áhrifum, áhættum og tækifærum innan samstæðunnar heldur einnig fróðara starfsfólk. Þess utan hafa niðurstöðurnar þegar haft áhrif á hvernig sjálfbærniáhættur eru metnar innan samstæðunnar og eiga þær eftir að leggja grunninn að sjálfbærni-, umhverfis- og mannauðsstefnum samstæðunnar.

Líkt og undanfarin fimm ár, framkvæmdi matsfyrirtækið Reitun UFS sjálfbærnimat á Festi. Tilgangurinn með matinu er að greina og meta hvernig Festi stendur sig í völdum UFS þáttum en kröfur Reitunar aukast markvisst ár frá ári. Að þessu sinni var heildareinkunn Festi 80 stig og hækkaði félagið því um flokk milli ára. Festi er því í flokki B1 og fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum, en meðaleinkunn félaganna sem fóru í UFS mat Reitunar var 72 stig eða flokkur B2. Lykilskýringar á bættri einkunn tengjast framförum í gagnasöfnun og -úrvinnslu í umhverfisbókhaldi, aukinni sjálfbærni í aðfangakeðju og ítarlegri vinnu við tvöfalda mikilvægisgreiningu. Að auki var vísað til þess að Festi ynni markvisst að því að innleiða sjálfbærni í alla anga samstæðunnar og hefði metnað fyrir að ná þar árangri.

Sjálfbærniuppgjör og tvíþátta mikilvægisgreining

Á þessu ári er tekin ný nálgun á sjálfbærniuppgjör samstæðunnar. Byggir það á grunni Corporate Sustainability Reporting Directive (CSRD) tilskipunarinnar og leiðbeininga evrópska sjálfbærniskilastaðalsins European Sustainability Reporting Standards (ESRS). Markmiðið með því að hafa ESRS til hliðsjónar við gerð sjálfbærniuppgjörsins er að fá reynslu af nýju regluverki áður en það tekur gildi og undirbúa Festi þannig betur til framtíðar. Skýrslan uppfyllir ekki allar skýringarkröfur sem ESRS gerir en greint er frá aðferðafræði og hvaða upplýsingar eru birtar í skýringum með einstökum mælikvörðum. Hluti hennar er staðfestur með takmarkaðri vissu af Deloitte.

Sjálfbærniuppgjör félagsins (e. Sustainability Statement) er sett fram í sjálfstæðu skjali sem nálgast má í vafrastiku ársskýrslunnar. Þar sem greiningarferlinu lauk á seinni hluta síðasta árs reyndist ekki unnt að birta alla gagnapunkta í þessu fyrsta uppgjöri. Starfsemi félaga Festi er fjölbreytt og ýmsar áskoranir fylgja vöruframboði okkar þar sem megináhrifin eiga sér oft stað í virðiskeðjunni, s.s. við framleiðslu, flutning eða notkun vara af hálfu viðskiptavina. Af þessum sökum töldust margir flokkar ESRS mikilvægir fyrir Festi, en það mun taka tíma að safna öllum gögnum, móta stefnur og forgangsraða aðgerðum. Auk þess ber að nefna að þar sem opinber þýðing á ESRS hefur ekki átt sér stað verða heiti á köflum og gagnapunktum sett fram á ensku til að lágmarka líkur á misskilningi og koma í veg fyrir rangar þýðingar.

Samantekt á völdum atriðum úr sjálfbærniuppgjörinu er að finna í næstu köflum um tvíþátta mikilvægisgreiningu, umhverfis-, félags- og stjórnarhætti en ítarlegri og umfangsmeiri upplýsingar eru að finna í uppgjörinu sjálfu.

Hvað er tvíþátta mikilvægisgreining?

Tvíþáttamikilvægisgreining (e. double materiality assessment, DMA) er aðferð sem horfir bæði á það hvernig ytri þættir (s.s.umhverfis- og samfélagsmál) geta haft fjárhagsleg áhrif á fyrirtæki (e. outside-in)og hvernig starfsemi fyrirtækis hefur, eða getur haft, áhrif út á við ásamfélag og umhverfi (e. inside-out). Með því að meta þessa tvo fleti samhliða másjá hvaða málaflokkar eru brýnastir fyrir fyrirtækið að einbeita sér að oghvers vegna. Þá er bæði horft á eigin rekstur og virðiskeðjuna í heild, fráhráefnavinnslu til förgunar. Niðurstaðan gefur heildstæða mynd af stöðu mála, hjálparfyrirtækjum að bæta ákvarðanatöku og eykur trúverðugleika ísjálfbærniupplýsingagjöf.

Nálgun Festi á tvíþátta mikilvægisgreiningu

Á árinu 2024 tóku fulltrúar frá öllum félögum Festi þátt í framkvæmd tvíþátta mikilvægisgreiningu. Unnið var með reyndum ráðgjöfum með sérþekkingu á atvinnugreinum Festi til að tryggja faglega og ítarlega yfirferð. Hvert félag var skoðað út frá virðiskeðjunni í heild, þ.e. frá hráefnavinnslu til förgunar, og borin kennsl á helstu áhrifasvæði virðiskeðjunnar (e. impact hot spots).

Við framkvæmd mikilvægisgreiningarinnar voru nýtt eigin gögn samstæðunnar, ytri rannsóknir ásamt sérfræðiráðgjöf. Bæði voru metin neikvæð og jákvæð áhrif og þau metin út frá stærð, umfangi, óafturkræfni (ef neikvæð) og líkum á því að þau myndu eiga sér stað. Mikilvægi áhættu og tækifæra var metið út frá líkum og fjárhagslegum áhrifum en matið var samræmt við núverandi áhættumat félagsins.

Fulltrúar frá rekstrarfélögum Festi tóku virkan þátt í rýni niðurstaðna greiningarinnar en sjónarmið ýmissa hagaðila, þar á meðal við eigendur fyrirtækisins, voru tekin inn með viðtölum.

Festi ákvarðaði mikilvægisþröskuld til að skilgreina út frá niðurstöðum á áhrifa-, áhættu- og tækifærismati hvaða þættir væru mikilvægir fyrir samstæðuna. Rétt val á þröskuldi tryggir að sjálfbærniupplýsingagjöf sé hvorki of víðtæk né takmörkuð og verður hann endurskoðaður árlega með tilliti til breytinga í rekstri og væntinga hagaðila.

Niðurstöður og áframhaldandi vinna

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá samantekt á þeim yfir- og undirflokkum ESRS sem töldust mikilvægir fyrir samstæðu Festi. Vert er að nefna að skv. aðferðarfræði ESRS verður flokkur mikilvægur fyrir alla samstæðuna sé hann mikilvægur fyrir eitt félag samstæðunnar.

Áhrif á upplýsingagjöf í sjálfbærniuppgjöri Festi

Festi mun á næstu misserum halda áfram að þróa gagnasöfnun, skýra markmið og innleiða stefnur sem styðja við sjálfbærniupplýsingagjöf félagsins. Næsta skref er að byggja ofan á þessa vinnu með dýpri greiningu, frekari stefnumótun og enn markvissari aðgerðum til að tryggja framfarir í sjálfbærni.

Umhverfisþættir

Áherslur og árangur á árinu

Líkt og áður hefur komið fram fór mikil vinna í það á árinu að greina frekar umhverfisáhrif af starfsemi samstæðunnar og kortleggja betur losun gróðurhúsalofttegunda í virðiskeðjunni. Losun samstæðunnar eykst töluvert milli ára en ástæða þess er fyrst og fremst vegna þess að félagið hefur nú náð betur utan um fleiri flokka fyrir óbeina losun, s.s. kolefnisspor vöru og þjónustu, og þar með öllum mikilvægustu flokkunum fyrir starfsemi samstæðunnar. Var það grundvallarforsenda þess að hægt væri að hefja vinnu við að setja saman raunhæfa aðgerðaráætlun um hvernig félagið hyggist ná langtímamarkmiði sínu um nettólosun núll árið 2040. Fyrstu verkefnin til að draga úr losun hafa þegar verið sett í gang en áfram verður unnið að útfærslu aðgerðaráætlunar á árinu 2025.

Dótturfélög Festi stigu jafnframt ýmis skref á árinu til að draga úr umhverfisáhrifum. Má sem dæmi nefna að ELKO bætti við sjálfbærniupplýsingum um vörur á vefsíðu félagsins, Krónan hóf að molta eigin lífrænan úrgang og tókst að fjarlægja frauðplast úr starfsemi sinni, Lyfja hóf að merkja og markaðssetja sérstaklega vörur lausar við skaðleg aukaefni sem „hreinar vörur“ og N1 hóf fyrst fyrirtækja á Íslandi sölu á lífrænum dísil til almennings, en hann hefur allt að 90% minna kolefnisspor en önnur dísilolía. Frekari upplýsingar um aðgerðir rekstrarfélaga samstæðunnar má lesa um í sjálfbærniskýrslum þeirra.

Losunarbókhald

Við mat á losun er notast við aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol; alþjóðlegs fyrirtækjastaðals fyrir upplýsingagjöf um losun gróðurhúsalofttegunda. Vert er að taka fram að tölur í losunarbókhaldi fyrir 2023 stemma ekki við þær tölur sem birtar voru í sjálfbærniskýrslu og sjálfbærniuppgjöri síðasta árs. Er þetta sökum þess að fram að því var stuðst við umhverfisstjórnunarkerfi en á árinu 2024 hóf Festi að nota rafræna reikninga og fjárhagsbókhald félagsins til að reikna kolefnisspor. Auk þess var bætt verulega við útreikningi á kolefnisspori fyrir virðiskeðjuna. Losun fyrir árið 2023 var því ekki einungis endurreiknuð á nýjum grunni heldur einnig með auknu umfangi.

Umfang 1

Enn betri yfirsýn hefur náðst yfir losun frá starfseminni á árinu, meðal annars með betri greiningu á notkun kælimiðla innan samstæðunnar, þ.m.t. endurnýttra kælimiðla. Þrátt fyrir að losun vegna bruna eldsneytis hafi hækkað lítillega milli ára lækkar bein losun frá starfseminni um rúmlega 29% milli ára þar sem verulega dró úr losun vegna leka óumhverfisvænna kælimiðla.

Starfsemi Krónunnar krefst mikils magns kælimiðla auk þess sem kælar eru á fjölmörgum þjónustustöðvum N1. Losunarstuðlar kælimiðla eru afar mismunandi en svokölluð F-gös (freon) hafa ca. 3.900x hærri losunarstuðul en CO2 (koltvísýringur) og geta því fá kílógrömm losunar af F-gösum valdið miklu tjóni. Til að draga úr áhættu og takmarka losun gróðurhúsalofttegunda er verið að skipta út eldri F-gasa kælikerfum samstæðunnar út fyrir CO2 kælikerfi auk þess sem tekist hefur að kortleggja leka kælimiðla niður á einstakar staðsetningar. Á síðasta ári fór hlutfall CO2 kæla Krónunnar úr 53% í 56% en markmiðið er að öll kælikerfi í verslunum Krónunnar verði orðin CO2 kælikerfi árið 2028.

Til að draga úr losun vegna eldsneytisnotkunar farartækja hefur Festi sett sér það markmið að 25% bílaflotans verði orðinn rafvæddur árið 2025 að undanskildum vörubílum og stærri sendibílum. Festi hefur einnig hafið notkun á lífrænum dísil fyrir þá bíla sem erfiðara er að skipta yfir á rafmagn, eins og t.d. stærri sendibílum.

Umfang 2 og samsetning orku

Til umfangs 2 telst óbein losun tengd rafmagni og hita fyrir eigin not. Starfsstöðvar samstæðunnar eru tæplega tvö hundruð og hefur þeim farið fjölgandi gegnum árin, sérstaklega 2024 með innkomu Lyfju í samstæðuna. Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa (rafmagn, heitt vatn og lífrænn dísill) var 96% og breyttist óverulega milli ára.

Raforkunotkun helst nánast óbreytt milli ára en heitavatnsnotkun jókst um 7%.

Keyptar voru upprunaábyrgðir fyrir rafmagsnotkun samstæðunnar, sem og rafmagnsnotkun viðskiptavina á hvers kyns hleðslustöðvum í rekstri hjá N1. Upprunaábyrgðirnar gera félaginu kleift að halda markaðstengdri losun (e. market based emissions) vegna raforku jafn lágri og losun byggð á staðsetningu (e. location based emissions).

Umfang 3

Milli ára tvöfaldaðist fjöldi undirflokka í umfangi 3 sem reiknast með í losun samstæðunnar en til viðbótar við flokkana eldsneytis- og orkutengd starfsemi, úrgangur frá rekstri, notkun seldrar vöru og viðskiptaferðir bættust við aðkeypt vara og þjónusta, flutningur og dreifing (til félaga Festi), förgun seldrar vöru og leigðar fasteignir. Auk þess hafa allir flokkar nú verið taldir með að fullu.

Eftir endurútreikning heildarlosunar samstæðunnar m.t.t. nýrra grunngagna og fleiri undirflokka í umfangi 3, jókst mæld losun um rúm 6% milli ára vegna aukinnar losunar í umfangi 3. Aukningin kemur fyrst og fremst til vegna aukinnar sölu eldsneytis hjá N1 og aukinnar vörusölu hjá Krónunni. Þótt langstærstur hluti losunar hjá samstæðunni eigi sér stað við framleiðslu, flutning, notkun og förgun vara sem félög Festi selja, þá er mikilvægt að greina og draga úr þeim þáttum sem snerta rekstur félagsins í umfangi 3.

Félagið innleiddi nýja ferla við skráningu flugferða í bókhald samstæðunnar með það að markmiði að greina kolefnisspor óháð birgja en óveruleg breyting var á losun vegna viðskiptaferða milli ára.

Festi náði betur utan um úrgang samstæðunnar með því að nýta rafræna reikninga til að reikna kolefnisspor og vakta árangur. Óveruleg breyting var á losun vegna úrgangs frá rekstri hjá samstæðunni þrátt fyrir verulega aukningu í flokkun.

Úrgangur úr rekstri

Úrgangsstraumar Festi eru fjölbreyttir og samanstanda að mestu leyti af rekstrarúrgangi, svo sem umbúðum, matvælum, olíuleifum og úrgangi úr olíuskiljum frá þjónustustöðvum N1. Einnig kemur stór hluti úrgangs frá dekkjaverkstæðum N1, þar sem viðskiptavinum býðst að skila notuðum dekkjum til endurvinnslu. Að sama skapi tekur ELKO við raftækjaúrgangi frá viðskiptavinum til að tryggja að hann fari í réttan farveg.

Heildarúrgangur samstæðunnar lækkaði lítillega milli ára, en flokkunarhlutfall jókst um 5 prósentustig og náði 77% árið 2024. Endurútreikningur á heildarúrgangi ársins 2023, byggt á rafrænum reikningum félagsins, leiddi í ljós að félagið hafði aðeins náð 72% flokkun í stað áður talinna 77,5% og náðist því markmið félagsins um 80% flokkunarhlutfall árið 2024 ekki að þessu sinni. Þó varð ljóst að aukin yfirsýn með lifandi mælaborðum hefur lagt traustan grunn að því að ná langtímamarkmiði Festi um >90% flokkun árið 2030.

Kolefnisjöfnun

Festi og dótturfélög kolefnisjafna alla losun frá rekstri samstæðunnar, sem skilgreind er sem umfang 1 og 2 auk úrgangs og viðskiptaferða úr umfangi 3. Einungis voru keyptar vottaðar einingar á móti losun rekstrar. Að auki voru keyptar 147 óvottaðar einingar frá fyrirtækinu SoGreen en verkefni þeirra snýr að því að mennta og efla stúlkur í fátækum ríkjum og styður þannig samtímis við félagslega þætti og umhverfisþætti.

Festi fjárfesti í eftirfarandi einingum á móti losun rekstrar árið 2024:

  • 3.419 vottaðar kolefniseiningar íGold standard verkefninu Clean Cooking Project for Refugees, Host Communities,and Other Marginalized Communities in Bangladesh. Frekari upplýsingar hér.
  • 1.140 vottaðar kolefniseiningar íGold standard vindorkuverkefninu Elmali Wind Power Plant í Tyrklandi, árgerð2020 í verkefni nr. GS4442. Frekari upplýsingar hér.

Verkefni í vottaðri nýskógrækt

Festi hefur lokið gróðursetningu í vottaðri nýskógrækt á eignarlandi sínu að Fjarðarhorni í Hrútafirði. Verkefnið fól í sér gróðursetningu um 430 þúsund trjáplantna á um 180 hektara landsvæði en þar af voru um 124 þúsund trjáplöntur gróðursettar árið 2024.

Verkefnið gerði Festi að fyrsta fyrirtækinu á Íslandi til að skuldbinda sig til að skrá kolefnisbindingu í Loftslagsskrá Íslands samkvæmt kröfum gæðakerfis Skógarkolefnis. Var það staðfest með undirritun verksamnings við Loftslagsskrá Íslands og Land og skóg (áður Skógræktin).

Verkefnið er nú í vottunarferli og er gert ráð fyrir að því ljúki á fyrri hluta ársins 2025. Nú þegar gróðursetningu er lokið verður árangur metinn, meðal annars með tilliti til lifunar plantna, og hugsanlegar íbætur framkvæmdar. Þá er möguleiki á að bæta við 20-30 þúsund trjáplöntum innan skilgreinds svæðis, sem myndi auka heildarfjölda plantna sem og áætlaða kolefnisbindingu. Unnið yrði að því að afla plantna og tryggja verktaka fyrir þessa viðbótargróðursetningu á vormánuðum eða sumri 2025.

Kolefnisbinding með skógrækt hefur reynst árangursrík aðferð sem skapar virðisaukandi afleiðingar. Auk þess að stuðla að bindingu kolefnis miðar Festi að því að styðja við atvinnusköpun á svæðinu, sem og að efla útivist og hreyfingu með aðstöðu á svæðinu, s.s. bekkjum og borðum fyrir gesti.

Samkvæmt uppfærðri áætlun er gert ráð fyrir að kolefnisbinding Festi á verkefnatímanum (50 ár) muni nema um 52 þúsund tonnum af CO2, en þessi tala gæti hækkað verði viðbótargróðursetning framkvæmd. Þegar trén hafa náð nægum vexti, eftir um 5-10 ár, verður binding kolefniseininga metin og vottuð af óháðum aðila, sem gerir Festi kleift að virkja einingarnar og telja á móti losun samstæðunnar.

Félagslegir þættir

Áherslur og árangur á árinu

Festi og dótturfélög þess leggja mikla áherslu á að vera eftirsóknarverðir vinnustaðir sem laða að og halda í hæft og traust starfsfólk. Eitt lykilverkefna ársins var að tryggja vel heppnaðan samruna við Lyfju en við hann fjölgaði starfsfólki umtalsvert og starfa nú rúmlega 2.700 manns hjá samstæðunni. Í kjölfar sameiningarinnar var ráðinn mannauðsstjóri fyrir alla samstæðuna með það að markmiði að samræma áherslur í starfsmannamálum, efla innri samskipti og deila lærdómi milli rekstrareininga.

Undanfarin ár hefur félagið unnið markvisst að því að skapa öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi, stuðla að jafnrétti og bæta samskipti innan samstæðunnar. Hjá henni starfar fólk af 63 þjóðernum og var því mikilvægt skref stigið þegar öll félög samstæðunnar hófu að bjóða starfsfólki af erlendum uppruna upp á íslenskukennslu í gegnum smáforritið Bara tala. Annað lykilverkefni er innleiðing nýs samskiptatóls fyrir samstæðuna. Mun það auðvelda stjórnendum og starfsfólki að hafa samskipti þvert á rekstrareiningar og dreifa fræðslu. Innleiðingu tólsins verður lokið á vormánuðum 2025.

“Undanfarin ár hefur félagið unnið markvisst að því að skapa öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi, stuðla að jafnrétti og bæta samskipti innan samstæðunnar.”

Jafnrétti kynjanna

Öll félög Festi eru jafnlaunavottuð samkvæmt ÍST 85:2015 en í síðasta vottunarferli (vorið 2024) var staðfest að launamunur væri hvergi meiri en 1% fyrir sambærileg störf. Félagið hefur náð góðum árangri í að jafna kynjahlutfall starfsfólks, sérstaklega í efra starfsmannalagi og fengu Festi, Bakkinn, ELKO, Krónan, Lyfja og N1 öll afhenta Jafnvægisvog FKA fyrir jafnvægi í hlutfalli kynja í efsta lagi stjórnunar árið 2024. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn Festi er 44% en í forstöðumannahópi félagsins er hlutfallið 50%.

Félög samstæðunnar fylgja mannauðs-, jafnréttis- og jafnlaunastefnum sem nálgast má á heimasíðu Festi en farið verður í heildstæða uppfærslu á stefnunum á árinu.

Starfsánægja og starfsmannavelta

Stöðugildi hjá samstæðunni að meðaltali umreiknuð í heilsársstörf voru 1.533 árið 2024 sem er aukning um 181 eða 13,4% frá fyrra ári. Skýrist aukningin að mestu leyti af því að Lyfja kom inn í samstæðuna um mitt árið. Starfsmannavelta endurspeglar fjölbreytta starfsemi félaganna og árstímabundið álag auk þess sem starfsstöðvar Festi eru oft fyrsti starfsvettvangur fólks. Starfsmannavelta fyrir starfsfólk í fullu starfi hjá samstæðunni var um 12%, óbreytt frá síðustu tveimur árum. Heildarstarfsmannavelta var 37,6% en veltan er enn hæst meðal starfsmanna undir 20 ára aldri, þar sem stór hluti starfsfólks er í hlutastörfum. Frekara niðurbrot má finna í sjálfbærniuppgjöri félagsins og sjálfbærniskýrslum rekstrarfélaga Festi.

Vinnustaðagreiningar eru framkvæmdar árlega til að mæla líðan á vinnustað og eru niðurstöður rýndar með stjórnendum og starfsfólki, bornar saman við markmið og gripið til aðgerða þar sem við á. Í vinnustaðagreiningu samstæðunnar fyrir árið 2024 mældist heildaránægja 4,03 sem er hækkun um 0,02 frá árinu áður en hæsta mögulega einkunn er 5,0 og þykir allt yfir 4 almennt vera góð niðurstaða. Félagið hefur sett sér markmið um að halda áfram að hækka meðalskor í könnuninni.

Ýmis verkefni hafa verið sett af stað til að styðja við aukna velferð starfsmanna og gera Festi að framúrskarandi vinnustað. Stór sigur náðist á árinu þegar í fyrsta sinn var öllu þáverandi starfsfólki Festi boðið að vera með í kaupréttarkerfi sem tengir hagsmuni starfsfólks við árangur félagsins og hvetur til langtímaviðveru.

Veikindahlutfall og velferð

Festi vill vera heilsueflandi vinnustaður og hefur sett markmið um að hlúa enn betur að velferð starfsfólks. Öllu starfsfólki er boðið upp á velferðarpakka sem veitir aðgang að margvíslegri þjónustu sem stuðlar að betri andlegri og líkamlegri heilsu.

Fylgst er með veikindahlutfalli í öllum félögum samstæðunnar en líkt og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum hækkaði hlutfallið í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Hlutfallið hefur á síðustu tveimur árum tekið að lækka aftur en hefur þó haldist hærra hjá félögum þar sem unnin eru líkamlega krefjandi störf. Félagið hefur sett sér markmið um að lækka hlutfallið milli ára með sérstakri áherslu á fræðslu og forvarnir.

Öryggi og vinnuvernd

Hjá Festi er núll-slysastefna sem þýðir að engin slys eru ásættanleg. Áhersla var lögð á vinnuvernd og öryggi hjá Bakkanum og N1 á árinu, en það eru þau félög samstæðunnar þar sem slys eru algengust. Slysum fækkaði um 25% milli ára, úr 32 í 24 (án Lyfju), sem er afar ánægjulegt. Áfram verður leitað leiða til að draga úr slysum hjá samstæðunni á árinu 2025.

Stjórnarhættir

Helstu áherslur og árangur á árinu

Festi og rekstrarfélög eru meðvituð um þau áhrif sem þau hafa á samfélagið allt með starfsemi sinni. Skýr umgjörð hefur verið sett um stjórnarhætti með það að markmiði að tryggja ábyrg viðskipti og fagleg vinnubrögð í allri starfsemi. Festi er hlutafélag skráð í Kauphöll Íslands og fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja auk þess sem það fylgir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Frekari upplýsingar um stjórnarhætti félagsins má finna í stjórnarháttayfirlýsingu ársreikningsins og á vefsíðu félagsins.

Á árinu 2024 var áherslan á ábyrga virðiskeðju stóraukin með útfærslu siðareglna fyrir birgja og þjónustuaðila og framkvæmd birgjamats. Ferlið fyrir áhættumat félagsins var endurskoðað og bætt auk þess sem stórt skref er nú stigið í upplýsingagjöf félagsins með birtingu nýs sjálfbærniuppgjörs byggt á ramma ESRS samhliða ársskýrslu Festi.

Félagið náði sátt við Samkeppniseftirlitið í júlí vegna kaupanna á Lyfju og hafa stjórnendur lagt mikla áherslu á að sáttin sé kynnt viðeigandi starfsfólki. Önnur sátt var gerð undir lok árs vegna brota á sátt sem gerð var við samruna N1 og Festi árið 2018. Sú sátt fól jafnframt í sér greiðslu á sekt til Samkeppniseftirlitsins og hefur félagið dregið mikilvægan lærdóm af málinu.

“Á árinu 2024 var áherslan á ábyrga virðiskeðju stóraukin með útfærslu siðareglna fyrir birgja og þjónustuaðila og framkvæmd birgjamats.”

Ábyrg virðiskeðja

Sjálfbærni í aðfangakeðjunni var lykiláhersla hjá Festi á árinu 2024, en unnið var unnið að því að skerpa á kröfum til birgja og þjónustuaðila. Til að ýta undir ábyrg viðskipti voru siðareglur kynntar fyrir öllum helstu birgjum samstæðunnar, þar sem lagður var skýr rammi um umhverfisábyrgð, félagslega ábyrgð gagnvart starfsfólki og heiðarlega viðskiptahætti. Siðareglurnar voru settar á vef félagsins, þar sem birgjar og þjónustuaðilar gátu staðfest samþykki sitt með formlegum hætti.

Samhliða þessu var framkvæmt birgjamat á bæði innlendum og erlendum birgjum. Matið byggði á grunni siðareglnanna og var hannað með einföldu sniði til að auka líkur á góðri svörun, en sérstaklega var fylgst með framkvæmd þess í gegnum rafrænt mælaborð. Markmið samstæðunnar var að framkvæma birgjamat á a.m.k. 25% helstu birgja og þjónustuaðila og var það markmið uppfyllt og vel það í öllum rekstrareiningum.

Á komandi ári verður unnið að því að innleiða Lyfju í sama ferli og auka svörun í birgjamati enn frekar. Þá verða niðurstöður matsins rýndar og nýttar í ákvarðanatöku félagsins með það að markmiði að bæta sjálfbærnistjórnun í aðfangakeðjunni enn frekar.

Áhættumat

Festi framkvæmir áhættumat tvisvar á ári þar sem greindir eru helstu áhættuþættir í rekstri samstæðunnar. Á árinu 2024 var ferli matsins endurskoðað og fleiri stjórnendur fengnir til virkrar þátttöku, sem hefur skilað dýpri greiningu og skýrari sýn á lykiláhættuþætti.

Árið 2024 var áhersla á sjálfbærniáhættu aukin með því að nýta niðurstöður tvöfaldrar mikilvægisgreiningar til að fjölga og skerpa á þeim undirflokkum sjálfbærniáhættu sem metnir eru. Helstu niðurstöður áhættumatsins eru kynntar fyrir endurskoðunarnefnd Festi.

Gögn tekin út/sannreynd af ytri aðila

Áreiðanleiki sjálfbærnigagna er lykilatriði í upplýsingagjöf Festi og hefur sjálfbærniskýrsla félagsins síðastliðin tvö ár verið tekin út af Deloitte, þar sem veitt var álit með takmarkaðri vissu (limited assurance).

Í ljósi þess að sjálfbærniuppgjör ársins 2024 tekur stór skref í átt að ESRS upplýsingagjöf, sem hefur ekki enn verið lögfest á Íslandi, verður að þessu sinni lögð sérstök áhersla á úttekt á helstu sjálfbærnimælikvörðum í skýrslunni. Til viðbótar rýndi Deloitte aðferðafræði og niðurstöður tvíþátta mikilvægisgreiningar félagsins, sem veitir grundvöll fyrir sjálfbærnivegferð samstæðunnar.

Þrátt fyrir að ekki sé um lagalega skyldu að ræða tryggir þessi úttekt trúverðugleika og nákvæmni þeirra gagna sem liggja að baki sjálfbærniframmistöðu Festi. Með þessu fær félagið staðfestingu frá óháðum aðila á því að upplýsingagjöf þess standist viðeigandi viðmið og aðferðafræði.

Langtímamarkmið félagsins er að vera leiðandi fyrirtæki á íslenskum markaði þegar kemur að sjálfbærni.

Markmið ársins 2025

Langtímamarkmið félagsins er að vera leiðandi fyrirtæki á íslenskum markaði þegar kemur að sjálfbærni en hér að neðan má sjá hluta þeirra lykilmarkmiða sem félagið hefur sett sér í sjálfbærni bæði fyrir árið 2025 og til lengri tíma:

Fyrir frekari upplýsingar um áherslur og árangur félagins í sjálfbærnimálum er vísað í sjálfbærniuppgjör samstæðunnar.