Fjárhagur og ársreikningur

Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og viðeigandi ákvæði laga um ársreikninga.
Árs- og samstæðureikningar Festi fyrir rekstrarárið 2024 voru samþykktir af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 5. febrúar 2025. Endurskoðendur félagsins, Deloitte ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

Rekstur félagsins gekk vel. Aukin umsvif, sérstaklega í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar skiluðu betri rekstrarniðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Hlutafjárupplýsingar
Skráningarupplýsingar og markaðsverð
Festi hf. er skráð á aðallista NASDAQ OMX Iceland undir merkinu FESTI. Heildarmarkaðsvirð nam 88,4 milljörðum króna í árslok 2024 sem er hækkun um 26,6 milljarða eða 43,1% frá ársbyrjun 2024. Hlutabréfaverð Festi stóð í 284 kr. í árslok 2024.
Hlutafé
Heildarhlutafé félagsins samkvæmt samþykktum þess er 311.500.000 kr. í árslok 2024 en hlutaféð var hækkað um 10 millj. kr. á árinu vegna kaupanna á Lyfju. Eitt atkvæði fylgir hverjum einnar krónu hlut í félaginu. Eigendur hluta í félaginu eiga rétt til arðs í hlutfalli við eign sína við arðsúthlutun. Útistandandi hlutir í árslok 2024 námu 311.253.774 kr. en eigin hlutir námu þá 246.226 kr. eða 0,1% af útgefnu hlutafé.
Afkoma hlutabréfa
Hlutabréfaverð Festi var 205 kr. í ársbyrjun 2024 og stóð í 284 kr. í lok árs 2024. Hækkaði því hlutabréfaverðið um 38,5% á árinu 2024. Hæsta verð ársins nam 288 kr. en lægsta verðið nam 185 kr.
Seljanleiki hlutabréfa
Festi hefur gert samninga við Arion banka og Landsbanka um að annast viðskiptavakt fyrir eigin reikning gegn þóknun frá félaginu. Bankarnir munu samkvæmt samningunum setja fram kaup- og sölutilboð í hlutabréf útgefin af félaginu alla viðskiptadaga í viðskiptakerfi NASDAQ OMX Iceland.
Samkvæmt samningi við Arion banka skal fjárhæð hvers tilboðs að lágmarki vera kr. 100.000 að nafnvirði á gengi sem Arion banki ákveður, þó ekki með meira en 3% fráviki frá síðasta viðskiptaverði. Hámarksverðbil kaup- og sölutilboða er 1,5%. Eigi Arion banki viðskipti með bréf félagsins fyrir 50 millj. kr. að markaðsvirði eða meira í sjálfvirkri pörun innan dags, sem fer um veltubók bankans, falla niður skyldur um hámarksverðbil kaup- og sölutilboða innan þess dags. Ef verðbreyting innan viðskiptadags er umfram 5,0% er Arion banka heimilt að auka hámarksverðbil milli kaup- og sölutilboða í 3% og ef verðbreyting innan viðskiptadags er umfram 10% er bankanum heimilt að auka hámarksverðbil í 4,5% þann daginn.
Samkvæmt samningi við Landsbanka, skal bankinn setja fram dagleg kaup- og sölutilboð að lágmarki 15 millj. kr. að markaðsvirði. Tilboð skulu endurnýjuð innan 15 mínútna eftir að þeim er tekið. Hámarksmagn sem bankinn er skuldbundinn til að eiga viðskipti með á hverjum degi er 30 millj. kr. að nettó markaðsvirði sem reiknast sem mismunur á kaup- og sölutilboðum bankans sem gengið er að. Sé hámarksmagni dagsins náð, fellur niður skylda bankans til að setja fram tilboð á þeirri hlið sem fyllt hefur verið, þar til gengið hefur verið á tilboð bankans á mótlægri hlið og nettó viðskiptamagn er aftur komið undir daglegt hámark. Magnvegið hámarksverðbil milli kaup- og sölutilboða bankans ákvarðast af 10 daga flökti verðs hlutabréfa Festi. Sé 10 daga flökt minna en 30% skal magnvegið verðbil vera að hámarki 1,5% en sé 10 daga flökt jafnt og/eða hærra en 30% skal magnvegið verðbil vera 3%.
Tilgangurinn með viðskiptavaktinni er að efla viðskipti með hlutabréf félagsins í Kauphöll Nasdaq Iceland í því skyni að seljanleiki hlutabréfa félagsins aukist, markaðsverð skapist og verðmyndun hlutabréfanna verði með skilvirkum og gagnsæjum hætti.
Lykilhlutföll
Fyrir árið 2024 þá nam arðsemi eigin fjár 10,5% samanborið við 10% árið áður. Grunnhagnaður á hlut nam 13,13 krónum og þynntur hagnaður á hlut 13,05 krónum. Gerðir voru kaupréttarsamningar við starfsmenn á árinu og er þynntur hagnaður á hlut í krónum með áhrifum þeirra. Innra virði hlutafjár var 139,74 kr. í árslok 2024 og V/H hlutfallið 22,0 samanborið við 18,0 í árslok 2023. V/I hlutfallið var 2,0 og hækkar um 0,3 frá fyrra ári.
Hluthafar
Hluthafar félagsins í lok árs 2024 voru 1.219 en þeir voru 1.191 í upphafi ársins og fjölgaði því um 28 á árinu. Í árslok 2024 áttu 20 stærstu hluthafarnir eða 1,6% hluthafa, 85,6% af útistandandi hlutafé félagsins.
Eiginfjárstýring og arðgreiðslur
Stjórn Festi hefur mótað stefnu um fjármagnsskipan og arðgreiðslur en samkvæmt henni er miðað við að arðgreiðslur til hluthafa eða kaup eigin bréfa nemi að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs. Jafnframt er tiltekið í stefnunni að stefnt sé að því að EBITDA nemi 35% af framlegð, arðsemi eigin fjár sé yfir 11%, hlutfallið nettó vaxtaberandi skuldir/EBITDA sé undir 3,5 og eiginfjárhlutfall sé á bilinu 30-35%. Á aðalfundi félagsins þann 6. mars 2024 var tekin ákvörðun um greiðslu 3 kr. í arð á hlut vegna rekstrarársins 2023. Arður var greiddur til hluthafa þann 10. apríl 2024, samtals að fjárhæð 904 millj. kr. eða 26,3% af hagnaði ársins 2023.
Á aðalfundi Festi hf., sem haldinn var 6. mars 2024, var samþykkt að heimila stjórn félagsins að kaupa hlutabréf í félaginu fyrir allt að 10% af heildarhlutafé félagsins til að geta uppfyllt stefnuna en tekið fram að ekki yrði ráðist í endurkaup á árinu ef kaupin á Lyfju myndu ganga eftir heldur nýta fjármunina við kaupin. Þau kláruðust í júlí 2024 og var því ekki ráðist í endurkaup á árinu 2024.
Fjárfestatengsl
Markmið fjárfestatengsla Festi er að veita markaðnum upplýsingar þannig að hlutabréfaverð fyrirtækisins endurspegli ávallt gangvirði fyrirtækisins. Til að ná því markmiði er stefnt að því að veita fjárfestum og greiningaraðilum nákvæmar fjárhags- og fyrirtækjaupplýsingar á réttum tíma þannig að þeir hafi nauðsynlega innsýn til að mynda faglegt álit á verðmæti félagsins og horfum þess á hverjum tíma.
Fyrirtækið fer að gildandi lögum og kröfum samkvæmt reglum og leggur viðeigandi upplýsingar fram með tilkynningum til NASDAQ OMX Iceland.
Á heimasíðu félagsins, www.festi.is, eru að finna upplýsingar fyrir fjárfesta og greiningaraðila. Á síðunni eru upplýsingar um lykiltölur, árs- og árshlutareikninga, afkomutilkynningar, fjárfestakynningar, aðalfundi, stærstu hluthafa, hlutabréfaverð, fréttir úr kauphöll, fjárhagsdagatal og fleira.
Rekstur ársins
Afkomuspá ársins
Félagið gaf út afkomuspá 7. febrúar 2024 fyrir árið 2024, þar sem EBITDA afkoman var áætluð 11.200 – 11.600 millj. kr. Félagið hækkaði afkomuspá sína þrisvar á árinu en lækkaði hana einu sinni sem var í lok nóvember í 12.200 – 12.500 millj. kr., þegar félagið gerði sátt við Samkeppniseftirlitið og viðurkenndi brot í tengslum við samruna Festi og N1 árið 2018. Með sáttinni samþykkti félagið að greiða 750 millj. kr. sekt sem nánar er gerð grein fyrir í skýringu 32 í ársreikningi félagsins. EBITDA niðurstaða ársins nam 12.511 millj. kr. sem er umtalsvert betri en fyrsta afkomuspá ársins gerði ráð fyrir. Aukin umsvif hjá öllum dótturfélögum Festi skýra betri EBITDA afkomu, sérstaklega í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar þar sem velta og framlegð jókst mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá var afkoma Lyfju ekki inni í upphaflegri afkomuspá ársins.
Afkoma
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2024 námu 156.707 millj. kr. samanborið við 138.440 millj. kr. árið áður sem er um 13,2% hækkun milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og matsbreytingar (EBITDA) nam 12.511 millj. kr. samanborið við 11.015 millj. kr. árið áður og hækkaði um 13,6% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam 7.723 millj. kr. samanborið við 7.053 millj. kr. sem er 9,5% hækkun milli ára. Hrein fjármagnsgjöld námu 2.612 millj. kr. samanborið við 2.917 millj. árið áður sem er lækkun um 305 millj. kr. milli ára.
Hagnaður ársins 2024 nam 4.018 millj. kr. samanborið við 3.438 millj. kr. árið áður. Heildarafkoma ársins 2024 nam 6.423 millj. kr. samanborið við 3.429 millj. kr. árið áður en endurmat fasteigna að frádregnum tekjuskatti fært beint á eigið fé nam 2.437 millj. kr. Grunnhagnaður á hlut nam 13,13 kr. og þynntur hagnaður á hlut í krónum nam 13,05 kr. árið 2024 samanborið við 11,31 kr. árið áður.
Rekstrartekjur
Rekstrartekjum er skipt upp í vöru- og þjónustusölu annars vegar og aðrar rekstrartekjur hins vegar. Vöru- og þjónustusala ársins 2024 nam 154.463 millj. kr. samanborið við 136.251 millj. kr. árið 2023 sem er 13,4% hækkun milli ára. Heilt yfir var aukin sala á flestum sviðum rekstrar en Lyfja kom inn í samstæðuna frá byrjun júlí. Sala á dagvörum nam 78.357 millj. kr. og jókst um 13,3% milli ára. Eldsneytis- og raforkusala nam 39,866 millj. kr. og jókst um 2,6%. Sala raftækja nam 19.246 millj. kr., jókst um 6,6% milli ára og sala á öðrum vörum nam 10.153 millj. kr. og stendur í stað milli ára. Lyfseðilsskyld lyf og lausasölulyf er nýr flokkur hjá samstæðunni vegna kaupanna á Lyfju og nam sala í þeim flokki 6.841 millj. kr. árið 2024.
Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður ársins 2024 nam 26.456 millj. kr. samanborið við 21.840 millj. kr. sem er hækkun um 21,1% milli ára. Laun og annar starfsmannakostnaður nam 18.385 millj. kr. samanborið við 15.440 millj. kr. árið 2023, sem er 19,1% hækkun. Stöðugildin á árinu 2024 voru 1.533 að meðaltali samanborið við 1.352 árið áður eða 13,4% fleiri. Aukningin í stöðugildum án áhrifa Lyfju nemur um 3,5% milli ára. Meðallaunakostnaður á stöðugildi nemur 951 þús. kr. og hækkar um 4,6% milli ára.
Annar rekstrarkostnaður nam 8.071 millj. kr. samanborið við 6.400 millj. kr. sem er 26,1% aukning milli ára. Greidd var stjórnvaldssekt á árinu til Samkeppniseftirlitsins að fjárhæð 750 millj. kr. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 8,1% milli ára án áhrifa Lyfju og stjórnvaldssektar.

Efnahagsreikningur
Eignir samstæðunnar námu 114.835 millj. kr. í árslok 2024 samanborið við 96.032 millj. kr. árið áður. Eigið fé í lok árs 2024 nam 43.493 millj. kr. en var 35.842 millj. kr. í lok árs 2023. Eiginfjárhlutfall var 37,9% í lok árs 2024 samanborið við 37,3% í lok árs 2023. Í lok árs 2024 voru heildarskuldir 71.341 millj. kr. samanborið við 60.190 millj. kr. í lok árs 2023.
Eignir
Fastafjármunir
Fastafjármunir námu alls 88.293 millj. kr. samanborið við 72.405 millj. kr. sem er 15.888 millj. kr. hækkun frá árinu áður. Viðskiptavild nam 18.367 millj. kr. og hækkar um 3.525 millj. kr. milli ára vegna kaupanna á Lyfju, rekstrarfjármunir námu 41.217 millj. kr. og aukast um 5.438 millj. kr. milli ára en endurmat fasteigna í árslok nam 3.047 millj. kr. Leigueignir námu 10.535 millj. kr. og aukast um 2.438 millj. kr. milli ára. Fjárfestingarfasteignir námu 7.012 millj. kr. og hækkuðu um 365 millj. kr. milli ára en um er að ræða fasteignir sem leigðar eru út til félaga utan samstæðunnar. Fjárfestingarfasteignirnar eru metnar að gangvirði og er breytingin, 302 millj. kr. færð í gegnum rekstrarreikning.
Veltufjármunir
Veltufjármunir námu alls 26.542 millj. kr. samanborið við 23.627 millj. kr. sem er hækkun um 2.914 millj. kr. Vörubirgðir námu 14.118 millj. kr. sem er 561 millj. kr. aukning milli ára en áhrif Lyfju nema 1.371 millj. kr. til hækkunar. Viðskiptakröfur námu 7.168 millj. kr. sem er 1.183 millj. kr. hækkun frá árinu áður. Handbært fé í árslok 2024 nam 4.075 millj. kr. sem er 713 millj. kr. hækkun milli ára.
Eigið fé
Eigið fé nam 43.493 millj. kr. í árslok 2024 samanborið við 35.842 millj. kr. í árslok 2023. Félagið greiddi arð til hluthafa fyrir 904 millj. kr. á árinu. Í lánaskilmálum félagsins er gerð krafa um að eiginfjárhlutfall sé að lágmarki 25%. Í árslok 2024 var eiginfjárhlutfallið 37,9% samanborið við 37,3% í árslok 2023.
Skuldir
Langtímaskuldir
Langtímaskuldir námu alls 47.105 millj. kr. samanborið við 40.659 millj. kr. sem er 6.446 millj. kr. hækkun frá árinu áður. Skuldir við lánastofnanir námu 29.340 millj. kr. sem er 2.659 millj. kr. hækkun frá árinu áður. Samstæðan er með bæði verðtryggð og óverðtryggð langtímalán en þau eru öll í íslenskum krónum. Afborganir af langtímalánum námu 2.083 millj. kr. á árinu 2024 en félagið tók ný lán að upphæð 3.986 millj. kr. á árinu ásamt því að taka yfir 1.564 millj. kr. lán frá dótturfélagi. Leiguskuldir námu 10.001 millj. kr. sem er 2.208 millj. kr. aukning frá árinu áður.
Skammtímaskuldir
Skammtímaskuldir námu alls 24.236 millj. kr. samanborið við 19.531 millj. kr. sem er 4.706 millj. kr. hækkun frá árinu áður. Skuldir við lánastofnanir námu 3.227 millj. kr. og hækka um 1.420 millj. kr. milli ára. Viðskiptaskuldir námu 11.787 millj. kr. og hækkuðu um 2.027 millj. kr. milli ára. Aðrar skammtímaskuldir námu 7.834 millj. kr. og hækkuðu um 730 millj. kr. milli ára.

Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 9.053 millj. kr. á árinu 2024 og lækkar um 361 millj. kr. frá árinu 2023. Fjárfestingahreyfingar voru nettó neikvæðar um 8.108 millj. kr. en félagið fjárfesti fyrir 4.642 millj. kr. á árinu og kaupin á Lyfju, að frádreglu yfirteknu handbæru fé nam 4.141 millj. kr.. Fjármögnunarhreyfingar voru nettó neikvæðar um 160 millj. kr. en félagið greiddi arð fyrir 904 millj. kr., greiddi afborganir af langtímalánum og leiguskuldum fyrir 3.242 millj. kr. og tók ný lán fyrir 3.986 millj. kr. Handbært fé í árslok 2024 nam 4.075 millj. kr. og hækkaði um 713 millj. kr. á árinu 2024.
Fjárfestingar
Fjárfestingar ársins 2024 námu 4.642 millj. kr. samanborið við 4.015 millj. kr. árið áður. Fjárfestingar ársins skiptast í fasteignir og lóðir fyrir 506 millj. kr., hugbúnað fyrir 835 millj. kr. og aðra rekstrarfjármuni fyrir 3.301 millj. kr. Meðal helstu verkefna samstæðunnar var bygging nýrra þvottastöðva á þjónustustöðvum N1, algjör endurnýjun verslana Krónunnar í Grafarholti og á Bíldshöfða, algjör endurnýjun verslunar ELKO í Lindum ásamt endurbótum á starfsstöðvum félagsins víðsvegar um landið. Þá var áfram mikil fjárfesting í stafrænni þróun hjá öllum félögum á árinu.

Áhættustýring
Hér eru veittar upplýsingar um áhættur, markmið, stefnu og aðferðir samstæðunnar við að meta og stýra áhættunni, auk upplýsinga um rekstraráhættu. Markmið félagsins með áhættustýringu er að lágmarka þá áhættu sem það býr við með því að greina áhættuna, meta hana og hafa eftirlit með henni.
Eftirfarandi áhættur fylgja fjármálagerningum samstæðunnar:
- Lánsáhætta
- Lausafjáráhætta
- Markaðsáhætta (verðáhætta og vaxtaáhætta)
- Gengisáhætta
- Rekstraráhætta
- Sjálfbærniáhætta
Lánsáhætta
Lánsáhætta er hættan á því að félagið verði fyrir fjárhagslegu tapi vegna þess að viðskiptamaður eða mótaðili í fjármálagerningi getur ekki staðið við umsamdar skuldbindingar sínar. Lánsáhætta félagsins er einkum vegna viðskiptakrafna og annarra krafna.
Lánsáhætta ræðst einkum af aldri viðskiptakrafna, fjárhagsstöðu og starfsemi einstakra viðskiptavina, auk stöðu þeirra atvinnugreina sem stærstu viðskiptavinir félagsins starfa í, en það eru samgöngur, sjávarútvegur og verktakar. Um 22% (2023: 24%) af stöðu viðskiptakrafna í árslok eru vegna 30 stærstu viðskiptavina félagsins. Þar af nam staða stærsta viðskiptavinar 3% (2023: 3%).
Félagið hefur sett sér reglur um lánsviðskipti. Allir viðskiptavinir félagsins sem eru í lánaviðskiptum eru með lánamörk á viðskiptareikningi sem þeir geta ekki farið yfir. Lögaðilar þurfa almennt að leggja fram sjálfskuldarábyrgð eiganda sem nemur tveggja mánaða úttekt. Þetta á þó ekki við stærri aðila sem eru með gott lánshæfismat hjá CreditInfo.
Samstæðan færir niðurfærslu vegna væntra útlánatapa af viðskiptakröfum og öðrum kröfum. Við mat á niðurfærslu er byggt á sögulegri tapsreynslu, aldursgreiningu krafna, núverandi efnahagsástandi og framtíðarhorfum.
Lausafjáráhætta
Lausafjáráhætta er hættan á því að samstæðan lendi í erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sem gerðar verða upp með handbæru fé eða öðrum fjáreignum. Markmið samstæðunnar er að hafa ætíð nægt laust fé til að mæta greiðsluskuldbindingum sínum þegar þær falla til.
Lausafjárstaða samstæðunnar var sterk í árslok 2024. Stjórnendur samstæðunnar telja hana vera vel í stakk búna til að mæta skuldbindingum sínum eftir því sem þær gjaldfalla. Veginn meðallánstími langtímalána samstæðunnar er um 10 ár og eru lánin öll uppgreiðanleg á lánstímanum. Samstæðan hefur einnig aðgang að lánalínu sem er að hámarki 500 millj. kr. Í árslok 2024 var ekkert dregið á lánalínuna.
Markaðsáhætta
Markaðsáhætta samanstendur af verðáhættu, vaxtaáhættu og gengisáhættu. Markmið félagsins er að stýra og takmarka markaðsáhættu við skilgreind mörk.
Verðáhætta
Veigamikil markaðsáhætta félagsins er verðáhætta vegna breytinga á heimsmarkaðsverði á olíu, en heimsmarkaðsverð hefur undanfarin ár verið afar sveiflukennt. Dregið er úr verðáhættu í sérsamningum við stærstu viðskiptavini félagsins auk þess sem móðurfélagið gerir afleiðusamninga til að verjast hluta af verðáhættu vegna innkaupa á eldneyti. Samningarnir geta verið til nokkurra mánaða þar sem verð á olíu er fest í erlendri mynt og ná til þess hluta af eldsneytisinnkaupum samstæðunnar sem ekki er varinn með sérsamningum. Samningarnir eru gerðir upp með handbæru fé og eru færðir í rekstur með kostnaðarverði eldsneytis sem samningarnir tengjast en neikvæð afkoma af olíuvörnum nam 1 millj. kr. á árinu (2023: tap 63 millj. kr.). Gangvirði framvirkra samninga sem stóð á bundnum reikningi í eigin fé í lok árs 2024 nam 5 millj. kr. (2023: 3 millj. kr.).
Vaxtaáhætta
Samstæðan býr við sjóðstreymisáhættu vegna vaxtabreytinga fjárskulda sem eru með breytilegum vöxtum. Til að dreifa áhættunni er fjármögnun félagsins blanda af óverðtryggðum og verðtryggðum lánum.
Hækkun á vöxtum á uppgjörsdegi um eitt prósentustig (100 punkta) myndi lækka afkomu um 326 millj. kr. (2023: 285 millj. kr.) fyrir tekjuskatt vegna áhrifa á lántökur félagsins sem bera breytilega vexti. Útreikningurinn miðast við rekstraráhrif á ársgrundvelli. Lækkun vaxta um eitt prósentustig myndi hafa sömu áhrif en í gagnstæða átt.
Gengisáhætta
Öll viðskipti félagsins í erlendum myntum mynda gengisáhættu. Við mat á gengisáhættu er horft til greiðsluáhættu og uppgjörsáhættu. Markmiðið er að stýra gengisáhættu með þeim hætti að hagur félagsins sé sem best tryggður. Stærsti hluti innflutnings er kaup á vörum til endursölu af erlendum birgjum í USD og EUR en salan er að stærstum hluta í ISK. Sala í ISK er 96% (2023: 96%), USD 3% (2023: 3%) og aðrar myntir 1% (2023: 1%).
Næmnigreining
10% styrking íslenskrar krónu gagnvart eftirtöldum gjaldmiðlum í árslok myndi hafa hækkað (lækkað) afkomu félagsins fyrir tekjuskatt um eftirfarandi fjárhæðir:
10% veiking íslenskrar krónu gagnvart þessum gjaldmiðlum hefði haft sömu áhrif en í gagnstæða átt.
Rekstraráhætta
Rekstraráhætta er hættan á beinu og óbeinu tapi sem getur orðið vegna fjölda þátta í starfsemi samstæðunnar. Meðal áhættuþátta er vinna starfsmanna, tækni og skipulag sem beitt er.
Til að draga úr rekstraráhættu hefur meðal annars verið komið á viðeigandi aðgreiningu starfa, haft er eftirlit með lánsviðskiptum og fylgni við lög. Þá er unnið markvisst fræðslustarf með það að markmiði að allir starfsmenn fái nauðsynlega þjálfun tengda störfum þeirra fyrir félagið. Innleiddir hafa verið virkir verkferlar og reglur um afritatöku upplýsingakerfa. Þá eru unnar markvissar rekstraráætlanir og mánaðarleg uppgjör og frávik frá samþykktum áætlunum greind.
Sjálfbærniáhætta
Sjálfbærniáhætta er fjárhagsleg áhætta sem getur skapast vegna loftslagsbreytinga eða ef viðeigandi sjálfbærniþáttum er ekki nægilega vel stýrt. Mismunandi er eftir atvinnugreinum hvaða sjálfbærniþættir þykja áhættumestir.
Samstæðan horfir til leiðbeininga TCFD (e. task force on Climate-Related Financial Disclosures) þegar kemur að því að meta helstu sjálfbærniáhættur rekstrarfélaganna. Loftslagsáhættur eru ýmist skilgreindar sem raunlægar (e. physical), þ.e. áhætta sem birtist fyrirtækjum vegna beinna loftslagsáhrifa eða áhættur tengdar umbreytingum (e. transition risks) s.s. í formi stefnu- eða lagabreytinga.